Svo virðist vera sem peningar séu ástæðan fyrir því að Jean-Claude „Baby Doc“ Duvalier, fyrrverandi einræðisherra Haítí, sneri aftur til landsins á dögunum eftir 25 ára útlegð. Er talið að hann sé að reyna að koma í veg fyrir að svissnesk yfirvöld geri fé hans í þarlendum bönkum upptækt.
Fyrrverandi einræðisherrann hefur ekki gefið upp aðra ástæðu fyrir því hvers vegna hann sneri skyndilega aftur til landsins en að hann hygðist hjálpa til við uppbyggingu eftir jarðskjálftann mikla í fyrra en mannréttindasamtök og sérfræðingar telja að um sé að ræða fléttu til þess að komast hjá því að andvirði að minnsta kosti 670 milljóna króna á frystum svissneskum bankareikningum verði gert upptækt.
„Það virðist vera líklegasta útskýringin þegar þú setur öll pússlin saman,“ sagði Reed Brody, ráðgjafi Human Rights Watch og fyrrverandi saksóknari á Haítí.
Kenningin sem er nú víða viðtekin á Haítí er uppruninn í lögum sem sett voru í Sviss sem taka gildi þann 1. febrúar en þau myndu heimila að það sem eftir er af frystum eigum Duvaliers verði gerð upptækar og þeim skilað til Haítí.
Lögin eru þekkt sem Duvalier-lögin en samkvæmt þeim geta svissnesk yfirvöld gert ólöglegar eignir upptækar og skilað þeim til þess lands sem þær tilheyra jafnvel þó að það land hafi ekki gripið til lögfræðilegra úrræða.
Þar er þó kveðið á um tvö skilyrði. Annars vegar að ríki hafi ekki gripið til slíkra úrræða vegna veikleika innviða þess eða vegna þess að ekki næst til einstaklingsins sem málið varðar til að rétta yfir honum.
„Það þýðir að Sviss gæti gert féð upptækt og afhent það stjórnvöldum á Haítí án þess að þau þurfi að sækja Duvalier til saka,“ sagði Brody ennfremur.
„Hins vegar ef Duvalier fer til baka til Haítí og verður ekki lögsóttur gæti hann sagt að hægt hafi verið að ná til hans til að rétta yfir honum en það hafi ekki verið gert og því krafist þess að fá peningana sína aftur.“
Harðstjórinn fyrrverandi birtist óvænt í höfuðborginni Port-au-Prince 17. janúar.