Uppljóstrari í gæsluvarðhald

Rudolf Elmer.
Rudolf Elmer. Reuters

Dómstóll í Sviss hefur fallist á kröfu saksóknara um að Rudolf Elmer sæti gæsluvarðhaldi í 10 dag á meðan rannsakað er hvort hann hafi brotið svissnesk lög með því að afhenda uppljóstrunarvefnum WikiLeaks bankaupplýsingar.

Elmer afhenti Julian Assange, aðalritstjóra WikiLeaks, tvo geisladiska á blaðamannafundi í Lundúnum í vikunni og kom þá fram að um væri að ræða upplýsingar um auðmenn sem áttu fé á leynilegum reikningum í erlendum skattaparadísum. 

Á miðvikudag fékk Elmer skilorðsbundinn dóm fyrir brot á lögum um bankaleynd í öðru máli. Samkvæmt dómnum þarf Elmer að greiða rúma 6000 svissneska franka í sekt, um 900 þúsund krónur, ef hann brýtur af sér á ný innan tveggja ára. 

Elmer, sem er 55 ára, stýrði um tíma útibúi bankans Julius Baer á Caymaneyjum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka