Írskir græningjar tilkynntu í dag að flokkurinn hygðist draga sig út úr samsteypustjórn forsætisráðherrans Brians Cowens þannig að hægt væri að efna til kosninga fyrir 11. mars eins og áður hafði verið ákveðið.
John Gormley, leiðtogi flokksins, tilkynnti á blaðamannafundi í Dyflinni í dag að þolinmæði flokksmanna væri á þrotum eftir viku sem hefur einkennst af miklu umróti í stjórnmálum landsins sem leiddi til þess að Cowen hætti sem formaður Fianna Fáil, samstarfsflokks græningja í ríkisstjórn.
„Við höfum komist að þeirri niðurstöðu, að við getum ekki lengur verið í ríkisstjórn,“ sagði Gormley.
Þingflokkurin mun þó engu að síður styðja fjárlagafrumvarp sem talið er nauðsynlegt til að 67 milljarða evru neyðaraðstoð sem Írar náðu samkomulagi um við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í nóvember.