Segja árás á skipalest hafa verið löglega

Ísraelskir hermenn um borð í einu af skipunum sex í …
Ísraelskir hermenn um borð í einu af skipunum sex í skipalestinni, sem ráðist var á. Reuters

Niðurstaða rannsóknar, sem stjórnvöld í Ísrael létu fara fram, er að árás íraelskra sérsveitarmanna á skipalest hjálparsamtaka á Miðjarðarhafi á síðasta ári hafi verið í samræmi vð alþjóðalög. Skipin voru á leið til Gasasvæðisins með hjálpargögn.

„Hafnbannið sem sett var á Gasasvæðið... var löglegt út frá reglum alþjóðalaga," segir í niðurstöðu sex manna sérfræðinganefndar, sem falið var að rannsaka málið. „Aðgerðir sem Ísraelsmenn gripu til 31. maí árið 2010 til að framfylgja hafnbanninu höfðu þær óheppilegu afleiðingar að fólk lét lífið og særðist. Samt sem áður... er niðurstaðan að aðgerðirnar hafi verið í samræmi við reglur alþjóðalaga."

Níu tyrkneskir hjálparstarfsmenn létu lífið í árásinni, sem sætti alþjóðlegri fordæmingu. Sérstök nefnd, sem Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna skipaði til að rannsaka málið, komst að þeirri niðurstöðu að  full ástæða væri til að sækja Ísraelsmenn til sakar fyrir manndráp og pyntingar.

Þá voru í dag birtar niðurstöður rannsóknar sem fór fram í Tyrklandi á málinu. Komst þarlend rannsóknarnefnd að þeirri niðurstöðu, að Ísraelsmenn hefðu beitt óhóflegu ofbeldi. 

Er Ísraelsstjórn hvött til að greiða fjölskyldum þeirra, sem létust og særðust í árásinni, skaðabætur.  

Ísraelska nefndin skilgreindi  átökin milli Ísraelshers og Hamassamtakanna og annarra herskárra samtaka á Gasasvæðinu, sem alþjóðleg vopnuð átök. Hafnar nefndin rökum, sem hjálparsamtök hafa sett fram um að hafnbannið á Gasa komi niður á óbreyttum borgurum þar með ólöglegum hætti.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert