Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, sagði að skýrsla ísraelskrar rannsóknarnefndar um árás Ísraelshers á skipalest hjálparsamtaka sé ekki trúverðug. Ísraelsk mannréttindasamtök hafa einnig gagnrýnt skýrsluna harðlega.
„Hvernig getur skýrsla sem er pöntuð og unnin í sama landinu haft nokkurt gildi?" sagði Erdogan við tyrkneska fjölmiðla í dag.
Ísraelska nefndin komst að þeirri niðurstöðu að árás ísraelskra sérsveitarmanna á skipalest hjálparsamtaka á Miðjarðarhafi á síðasta ári hafi verið í samræmi vð alþjóðalög. Skipin voru á leið til Gasasvæðisins með hjálpargögn. 9 tyrkneskir hjálparstarfsmenn létu lífið í árásinni.
Í dag kom einnig út bráðabirgðaskýrsla tyrkneskrar rannsóknarnefndar þar sem niðurstaðan var sú að Ísraelsmenn hefðu beitt óhóflegu ofbeldi. Tyrkneska nefndin sagðist í yfirlýsingu vera agndofa yfir ísraelsku skýrslunni og að árás Ísraelsmanna hefði verið brot á mannréttindum og alþjóðlegum reglum.