Tyrkir og mannréttindasamtök gagnrýna ísraelska skýrslu

Jacob Turkel, fyrrverandi hæstaréttardómari, fór fyrir ísraelsku rannsóknarnefndinni.
Jacob Turkel, fyrrverandi hæstaréttardómari, fór fyrir ísraelsku rannsóknarnefndinni. Reuters

Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, sagði að skýrsla ísraelskrar rannsóknarnefndar um árás Ísraelshers á skipalest hjálparsamtaka sé ekki trúverðug. Ísraelsk mannréttindasamtök hafa einnig gagnrýnt skýrsluna harðlega.

„Hvernig getur skýrsla sem er pöntuð og unnin í sama landinu haft nokkurt gildi?" sagði Erdogan við tyrkneska fjölmiðla í dag. 

Ísraelska nefndin komst að þeirri niðurstöðu að árás ísraelskra sérsveitarmanna á skipalest hjálparsamtaka á Miðjarðarhafi á síðasta ári hafi verið í samræmi vð alþjóðalög. Skipin voru á leið til Gasasvæðisins með hjálpargögn. 9 tyrkneskir hjálparstarfsmenn létu lífið í árásinni.

Í dag kom einnig út bráðabirgðaskýrsla tyrkneskrar rannsóknarnefndar þar sem niðurstaðan var sú að Ísraelsmenn hefðu beitt óhóflegu ofbeldi. Tyrkneska nefndin sagðist í yfirlýsingu vera agndofa yfir ísraelsku skýrslunni og að árás Ísraelsmanna hefði verið brot á mannréttindum og alþjóðlegum reglum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert