Salamovu vísað úr landi

Madina Salamova sem er þekkt undir höfundarnafninu Maria Amelie í …
Madina Salamova sem er þekkt undir höfundarnafninu Maria Amelie í Noregi.

Madina Salamova er nú á leið til Moskvu í Rússlandi en henni var vísað úr landi í Noregi í morgun. Norska útlendingastofnunin varð ekki við ósk um að fresta því að vísa  Salamovu úr landi. Var Salamova handtekin í dag og flutt til Gardemoenflugvallar.

Salamova steig um borð í flugvélina fyrir tæpri klukkustund en hún hafði þá beðið í um hálftíma í lögreglubíl á flugbrautinni. Norskur unnusti Salamovu er sagður með í för, en hann ferðaðist líkt og aðrir farþegar í gegnum flughöfnina.

Flugvélin lagði af stað klukkan eitt að íslenskum tíma og mun lenda á Sheremetyevoflugvellinum í Moskvu um fimmleytið í dag. Rússneska útlendingaeftirlitið tekur á móti Salamovu á flugvellinum til að veita henni bráðabirgða-landvistarleyfi. Þá verða þar einnig fulltrúar frá norska sendiráðinu. 

Svartdal Hilde Lunde, norski sendiherrann í Moskvu, vildi ekki segja til um það hvort að Salamova þyrfi að fara heim til Norður-Ossetíu til að fá útgefið vegabréf sem gerir henni kleyft að ferðast aftur frá Rússland.

Salamova, sem er þekkt í Noregi undir höfundarnafninu Maria Amelie, fæddist í Norður-Ossetíu í Rússlandi fyrir 25 en foreldrar hennar fluttu með hana til Noregs þegar hún var barn að aldri.  Fjölskyldan fékk hins vegar aldrei landvistarleyfi.

Amelie talar norsku og hefur lokið háskólaprófi í Noregi. Á síðasta ári gaf hún út bók um líf ólöglegra innflytjenda í Noregi og byggði  hana að nokkru leyti á eigin lífi. Í kjölfarið fór útlendingastofnunin fram á það að hún yrði handtekin.

Að sögn blaðsins Aftenposten hefur Maria Amelie ítrekað sagt að hún óttist mjög að verða send til Rússlands og taki það mjög nærri sér. Um helgina hafa bæði lögmaður hennar og læknir sagt að þeir hafi áhyggjur af heilsu hennar. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert