Mótmæli aukast í Egyptalandi

Að minnsta kosti eitt þúsund manns hafa verið handteknir í mótmælunum í Egyptalandi undanfarna tvo daga. Sex hafa látist.

Þetta eru mestu mótmæli í landinu í þrjá áratugi, en þau beinast gegn forseta landsins, Hosni Mubarak.

Félagar í ungliðahreyfingunni 6. apríl hvetja nú til fjöldamótmæla eftir að föstudagsbænum múslíma lýkur á morgun. „Það verður ekkert frí frá mótmælunum í dag. Aðgerðir á götum úti munu halda áfram. Við krefjumst frelsis og virðingar og munum halda áfram þar til kröfum egypsku þjóðarinnar hefur verið mætt,“ segir á Facebook-síðu samtakanna.

Mótmæli héldu áfram fram eftir nóttu í höfuðborg landsins, Kaíró.Þeim lauk þegar lögregla varpaði táragassprengjum og handtók nokkra mótmælendur. Til nokkurra átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda, þegar mótmælendur hugðust brjóta sér leið að ráðuneytum landsins.

Í hafnarborginni Suez var sprengjum, svokölluðum mólótovkokkteilum, varpað að opinberum byggingum í gær og höfuðstöðvar stjórnarflokksins voru teknar yfir.  

Tugir manna voru handteknir í Alexandríu, næst stærstu borg Egyptalands, fyrir mótmæli.

Yfirvöld bönnuðu mótmæli í gær.

Meðal þess sem mótmælendur krefjast er að innanríkisráðherra landsins víki, en öryggissveitir undir hans stjórn hafa verið ásakaðar um að beita harðræði, hækkun lágmarkslauna og aðgerðir til að lækka matvælaverð.


Frá mótmælunum í Kaíró í gær.
Frá mótmælunum í Kaíró í gær. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert