Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í dag að sú ákvörðun stjórnvalda í Egyptalandi að loka fyrir aðgang almennings að netinu brjóti gegn lýðræðislegum skilgreingingum á málfrelsi og félagafrelsi.
Truflanir voru á net- og farsímasambandi í Egyptalandi í dag en stjórnvöld þar reyna að koma í veg fyrir fjölmennar mótmælaaðgerðir, sem fyrirhugaðar eru þar í landi í dag.
Ban, sem er í Davos í sviss á ráðstefnu Heimsviðskiptaráðsins, sagðist hafa fylgst grannt með atburðum í Túnis og nú Egyptalandi. Sagði hann að þjóðarleiðtogar ættu að líta á mótmælin í þessum Arabaríkjum sem tækifæri til að bregðast við lögmætri gagnrýni. Hvatti hann stjórnvöld til að beita ekki ofbeldi gegn mótmælendum.
Unga fólkið sem tekur þátt í götumótmælunum í Egyptalandi krefst ekki aðeins þess að Hosni Mubarak láti af embætti forseta. Egyptarnir vilja einnig koma í veg fyrir að sonur Mubaraks taki við forsetaembættinu.
Uppreisnin í Túnis fyrr í mánuðinum varð til þess að hreyfingum lýðræðissinna í öðrum löndum Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum hefur vaxið fiskur um hrygg. Þetta hefur vakið umræðu um hvort uppreisnin verði til þess að hver einræðisstjórnin á fætur annarri falli líkt og í hruni kommúnismans í Austur-Evrópu árið 1989.
Sum landanna eru undir stjórn gamalla þjóðhöfðingja sem hafa reynt að tryggja sonum sínum völdin.
Einn þeirra er Hosni Mubarak sem hefur beitt sér fyrir því að 47 ára sonur hans, Gamal, taki við forsetaembættinu. Gamal er fyrrverandi bankamaður og nýtur stuðnings ungra forystumanna í flokki forsetans, sem er með meira en 90% sætanna á þingi landsins.
Stjórnmálaskýrendur í Egyptalandi telja að þótt Mubarak haldi velli að þessu sinni hafi mótmælin síðustu daga orðið til þess að nær óhugsandi sé að sonur hans verði næsti forseti. Verði sonur hans í framboði í forsetakosningunum í september leiðir það að öllum líkindum til enn meiri mótmæla á götum egypskra borga, að því er Financial Times hefur eftir fréttaskýrendum.
Eftir að Bashar al-Assad tók við forsetaembættinu í Sýrlandi af föður sínum árið 2000 hafa nokkrir gamlir þjóðhöfðingjar í þessum heimshluta reynt að sjá til þess að völdin haldist í fjölskyldum þeirra. Þeirra á meðal var Zein al-Abidine Ben Ali, sem hrökklaðist frá völdum í Túnis fyrr í mánuðinum og hafði beitt sér fyrir því að kona hans, Leila, tæki við embættinu þótt flestir Túnisbúar fyrirlíti hana.
Forseti Jemens, Ali Abdullah Saleh, sem hefur verið við völd í rúm 32 ár, hefur undirbúið valdatöku sonar síns, Ahmeds, sem stjórnar nú sérsveitum hersins.
Hermt er að tveir synir Muammars Gaddafis, leiðtoga Líbíu, takist nú á um völdin þar í landi. Annar þeirra er yfirmaður öryggislögreglunnar og er talinn hafa sótt í sig veðrið að undanförnu í baráttunni við bróður sinn sem kveðst vera hlynntur pólitískum umbótum.