Hosni Múbarak, forseti Egyptalands, flutti ávarp í kvöld og lofaði að stuðla að umbótum í landinu. Hann sagðist ekki ætla að fara frá völdum, en sagðist hafa óskað eftir að ríkisstjórnin færi frá völdum. Ný stjórn yrði skipuð á morgun.
Múbarak sagði að hann hefði fylgst með mótmælunum í dag. Hann sagðist hafa gefið lögreglu um að verja fólk og eignir. Hann sagðist hafa gefið lögreglu fyrirmæli um að ráðast ekki á fólk að tilefnislausu. Hann sagðist virða rétt fólks til að tjá hug sinn.
„Við ætlum að halda áfram pólitískum, efnahagslegum og félagslegum umbótum í þágu lýðræðis í Egyptalandi,“ sagði Múbarak í sjónvarpsávarpinu.
Múbarak beindi orðum sínum sérstaklega til ungs fólks og hvatti það til að taka þátt í uppbyggingu landsins.
Fréttaskýrendur sögðu í kvöld að þessi ræða myndi ekki duga til að slá á mótmælin. Múbarak hefði greinilega ekki áttað sig stöðu sinni.