Stjórnvöld í Egyptalandi hafa sett útgöngubann á í borgunum Kaíró, Alexandríu og Suez. Tugir þúsunda manna hafa mótmælt á götum úti í allan dag og krafist afsafnar Hosni Mubarak forseta Egyptalands.
Ríkissjónvarpið í Egyptalandi sagði að útgöngubannið, sem gildir á milli kl. 18 í dag til 7 í fyrramálið, hafi verið sett á til að stöðva uppreisn, lögleysu og árásir á eignir í borgunum. Í kvöld bárust fréttir af því að mótmælendur hefðu ráðist inn í húsnæði ríkissjónvarpsins og unnið þar skemmdir.
Stjórnvöld í Egyptalandi sendi herinn út á götur í dag til að halda aftur af mótmælendum. Fréttaskýrendur telja að Múbarak hafi tekið þessa ákvörðun vegna þess að hann treysti ekki öryggislögreglunni. Sjónvarpsstöðin al-Jazeera sagði í kvöld að óstaðfestar fréttir hermdu að átök hefðu átt sér stað í dag í Kaíró milli hersins og öryggislögreglunnar.
Reuters segir að 410 hafi slasast í mótmælunum í Kaíró í dag og sumir séu með skotsár.
Búist hefur verið við því í dag að Mubarak ávarpaði þjóðina. Fréttamaður BBC í Egyptalandi segir að eftir því sem mínúturnar líði án þess að neitt heyrist í forsetanum virki hann veikari í augum þjóðarinnar.
Allt starfslið ísraelska sendiráðsins í Kaíró hefur verið flutt úr landi. Starfsmennirnir voru fluttir á brott með þyrlum.
Stjórnvöld í Egyptalandi lokuðu í dag fyrir starfsemi stærstu netþjóna landsins. Þetta lamaði netþjónustu í landinu að stærstum hluta. Einnig er farsímaþjónusta meira og minna lömuð. Ástæðan fyrir því að stjórnvöld grípa til þess ráðs að stöðva fjarskipti er sú að mótmælendur hafa notað netið til að skipuleggja mótmælin.
Óeinkennisklæddir lögreglumenn hafa verið á götum úti. Lögreglan hefur handtekið fjölda manns, en á vegum hennar hafa stórir bílar farið um götur og flutt fólk í fangelsi.