Innanríkisráðherra Egyptalands varar við að „markvissum aðgerðum“ verði beitt á mótmælum, sem fyrirhuguð eru eftir föstudagsbænir í dag.
Þetta verður fjórði dagurinn í röð sem Egyptar mótmæla stjórnarfari í landinu.
Netsamband og sms-þjónusta liggur nú niðri um gjörvallt landið, en þessi samskiptaform hafa verið notuð til að skipuleggja mótmælin.
Barack Obama Bandaríkjaforseti varar við því að ofbeldi sé engin lausn og hvetur bæði mótmælendur og stjórnvöld til að sýna stillingu. Hann hefur ennfremur hvatt forseta landsins, Hosni Mubarak, til að koma á umbótum.
Stærsta stjórnarandstöðuhreyfing landsins, íslamska bræðralagið, hefur gefið út þá yfirlýsingu að það muni taka þátt í mótmælunum í dag, en fram að þessu hefur afstaða þess verið varfærnisleg.
Að minnsta kosti 20 félagar í bræðralaginu voru handteknir í nótt, þar á meðal lögmaður þess. Einnig voru fimm fyrrum þingmenn handteknir.
Helsti stjórnarandstæðingur landsins, Mohamed ElBaradei, sem er handhafi Friðarverðlauna Nóbels mun einnig taka þátt í mótmælunum.
„Þetta eru úrslitatímar fyrir egypsku þjóðina. Ég tek þátt með fólkinu í landinu,“ sagði ElBaradei. Hann sagði við blaðamenn að hann væri tilbúinn til að leiða breytingar í landinu, yrði farið þess á leit við hann.
Talið er að sjö eða átta manns hafi látist í mótmælunum, fimm mótmælendur og tveir lögreglumenn og yfir eitt hundrað hafa særst. Talið er að um 1000 manns hafi verið teknir höndum í tengslum við mótmælin.