Hvetur Múbarak til að fara úr landi

Mohamed ElBaradei stjórnarandstöðuleiðtogi og fyrrum yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar
Mohamed ElBaradei stjórnarandstöðuleiðtogi og fyrrum yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar AMR ABDALLAH DALSH

Stjórnarandstöðuleiðtoginn Mohamed ElBaradei sagði í dag að sú ákvörðun Hosni Múbarak forseta Egyptalands að skipa varaforseta í fyrsta sinn sem og nýjan forsætisráðherra sé ekki nóg til að binda endi á uppreisnina í landinu.

ElBaradei hvatti einnig Múbarak til að yfirgefa Egyptaland hið fyrsta með hagsmuni þjóðarinnar í huga. Ummælin féllu í viðtali á Al Jazeera sjónvarpsstöðinni. Yfirmaður leyniþjónustu Egyptalands, Omar Suleiman, sór í dag embættiseið sem varaforseti auk þess sem Mubarak fól Ahmed Shafiq, fyrrverandi flugmálaráðherra, að mynda nýja ríkisstjórn eftir að Múbarak rak sitjandi ríkisstjórn í gær.  

„Ég virði bæði Suleiman og Shafiq en það er ekki nóg að skipta bara út embættismönnum," sagði ElBaradei fyrrum yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. „Ég hvet því Múbarak forseta og stjórn hans til þess að yfirgefa Egyptaland sem fyrst. Það er farsælla fyrir Egyptaland og þá sjálfa."

Joe Biden varaforseti Bandaríkjanna, Hillary Clinton utanríkisráðherra og æðstu embættismenn utanríkismála funduðu í tvær klukkustundir í Hvía húsinu í dag um ástandið í Egyptalandi. „Egyptar sætta sig ekki lengur við kyrrstöðu. Þau horfa til ríkisstjórnarinnar eftir þýðingarmiklum skrefum til að stuðla að raunverulegum umbótum," skrifaði talsmaður utanríkisráðuneytisins á Twitter eftir fundinn. „Egypsk yfirvöld geta ekki bara stokkað upp og staðið síðan áfram keik. Múbarak forseti verður að fylgja áheitum sínum um umbætur eftir með aðgerðum."

Útgöngubann hefur ríkt í Kaíró síðan klukkan 16 í dag að staðartíma. Herinn ræður almenningi frá því að brjóta bannið.  A.m.k. 76 eru látnir og 2.000 særðir. Læknir á bráðamóttöku Sayyed Galal sjúkrahússins í Kaíró segir að þangað hafi komið mótmælendur sem skotnir hafi verið vísvitandi í höfuðið.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert