A.m.k. 73 eru taldir hafa látist í mótmælunum í Egyptalandi síðustu tvo daga. Tugir þúsunda eru enn á götum úti þrátt fyrir útgöngubann. Fréttaskýrendur telja að alger upplausn sé í flokki Hosni Múbarak forseta.
Múbarak hefur ekki gefið til kynna að hann ætli að fara frá völdum þrátt fyrir að fjöldi Egypta hafi mótmælt stjórn hans í fimm daga. Nicolas Sarkozy forseti Frakklands, Angela Merkel kanslari Þýskalands og David Cameron forsætisráðherra Bretlands sendu í kvöld frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem Múbarak er hvattur til að greiða fyrir friðsamlegum stjórnarskiptum.
Mótmælin í dag hafa verið friðsamlegri en í gær. Hermenn eru á skriðdrekum á götum úti og hafa margir mótmælendur tekið fagnandi á móti hermönnum.
Fréttaskýrendur telja að alger upplausn sé í stjórnarflokki Múbaraks. Einn af forystumönnum í flokki forsetans, sem fór með viðskiptamál, sagði sig úr flokknum í dag. Fréttaskýrendur tala um tómarúm. Beðið sé eftir að Múbarak verði við kröfu mótmælenda um að segja af sér. Hann hefur hins vegar verið önnum kafinn í dag að endurskipuleggja stjórnina og skipa varaforseta. Þessar breytingar á stjórn hans virðast engu hafa breytt í hugum mótmælenda sem vilja að forsetinn segi strax af sér.