Tvær þotur frá flugfélaginu Turkish Airlines héldu í morgun af stað til Egyptalands til að sækja þangað tykneska ríkisborgara og flytja þá heim. „Í samvinnu milli utanríkisráðuneytisins og Turkish Airlines ætlum við að aðstoða um 750 tyrkneska ríkisborgara að komast burt frá Kaíró og Alexandríu," hefur AFP eftir talsmanni forsætisráðuneytis Tyrklands.
Að minnsta kosti 102 eru látnir í Egyptalandi á 6. degi mótmælanna gegn ríkisstjórn Hosni Múbarak. Bandaríkin hófu í morgun undirbúning á brottflutningi bandarískra þegna frá landinu. Þeir Bandaríkjamenn sem vilja yfirgefa landið verða flestir fluttir á örugga staði í Evrópu, að sögn bandaríska sendiráðsins í Kaíró.
Japönsk yfirvöld reyna nú einnig að aðstoða um 500 japanska ferðamenn í Egyptalandi sem hafa verið strand á flugvellinum í Kaíró. Utanríkisráðherra Japans fundaði með sendiherra Egyptalands í Japan í dag og lýsti áhyggjum sínum af ástandinu í landinu. Ráðherrann óskaði einnig eftir því að egypsk yfirvöld tryggðu að flugáætlun, sem legið hefur að nokkru leyti niðri, komist á að nýju og að flugferðum út úr landinu verði fjölgað þar til tekist hefur að flytja burt þá ferðamenn sem þar sitja fastir.