Byltingin geti opnað dyrnar fyrir öfgahyggju

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels hefur áhyggjur af því að óeirðirnar í Egyptalandi kunni að opna dyrnar fyrir öfgahyggju. Hann segist óttast að Egyptar kunni að fá yfir sig róttæka íslamistastjórn líkt og Íranar ef fram fer sem horfir.

„Þróunin gæti orðið slik, eins og hún hefur þegar orðið í nokkrum löndum þar á meðal Íran, að  kúgun og einræði íslamista taki við og þá verða mannréttindi sannarlega hundsuð og barin niður með öllu. Þeir eru líka ógnun við frið og stöðugleika siðmenntaðra þjóða,“ sagði Netanyahu á fundi með Angelu Merkel kanslara Þýskalands í dag.

Merkel varði viðbrögð Vesturlanda við mótmælunum í Egyptalandi.  Netanyahu sagðist fylgjast náið með þróuninni í Kaíró. „Við fylgjumst öll náið með stöðunni, bæði með áhyggjur í brjósti en einnig von um að friður muni raunverulega komast á. Stöðugleiki og öryggi eru grundvallaratriði og samtvinnuð.“

Egyptaland hefur verið nánasti bandamaður Ísraels í Arabaheiminum. Leiðtogaskipti í landinu gætu ógnað friðarsamkomulaginu milli ríkjanna tveggja, sem komið var á árið 1979, og haft í för með sér enn frekari ótryggara ástand en nú þegar ríkir í Mið-Austurlöndum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert