Flýja átökin í Egyptalandi

Fjöldi erlendra ferðamanna í Egyptalandi flýr nú landið vegna óeirða …
Fjöldi erlendra ferðamanna í Egyptalandi flýr nú landið vegna óeirða sem þar geisa. Reuters

Fjöldi útlendinga flýr nú átökin í Egyptalandi. Hollenskar ferðaskrifstofur og flugfélög byrjuðu í dag að flytja burt um 4.000 Hollendinga sem áætlað er að staddir séu í landinu. Þá hefur bandaríska utanríkisráðuneytið undirbúið flutning fjölda bandarískra ríkisborgara. Samkvæmt heimildum mbl.is er nú vitað um að minnsta kosti 20 Íslendinga í Egyptalandi, þar af 17 í Kaíró.

Talsmaður tryggingasjóðs hollenskra ferðaskrifstofa segir áætlað að flytja þurfi um 4.000 manns frá Egyptalandi til Hollands vegna óeirðanna í landinu. Af þeim voru um 1.500 farþegar í orlofsferðum á vegum Thomas Cook ferðaskrifstofunnar og aðrir 1.600 á vegum TUI Neterland ferðaskrifstofunnar.

Talsmaður Thomas Cook sagði að fyrirtækið sé þegar búið að koma 320 ferðamönnum frá Egyptalandi. Stefnt er að því að allir ferðamenn á vegum ferðaskrifstofunnar verði farnir frá Egyptalandi síðdegis á morgun. Lággjaldaflugfélagið Transavia ætlaði að fara átta aukaferðir til Egyptalands í dag og flytja þaðan um 1.500 farþega.

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði í gær að það hafi undirbúið flutning þúsunda bandarískra ríkisborgara frá Egyptalandi. Nota á leiguflugvélar til flutninganna og var reiknað með að fólkið yrði flutt til ýmissa áfangastaða í Evrópu. Leiguflugið átti að hefjast í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert