Þúsundir mótmælenda hafa nú safnast saman í miðborg Kaíró til að taka þátt í milljón manna göngunni, sem fyrirhuguð er í dag. Her landsins hefur gefið út yfirlýsingu um að vopnum verði ekki beitt.
Lögregla landsins hefur lítt verið sýnileg undanfarna tvo daga, en hefur verið nokkuð áberandi í morgun. í fjarveru lögreglu fóru flokkar manna ránshendi um Kaíró og fangar brutust út úr fangelsum, án þess að nokkur fengi rönd við reist.
Ekki er vitað hvaða afstöðu lögregla tekur til mótmælanna.
Gangan þykir vera mikilvægt skref í mótmælunum í Egyptalandi, sem nú hafa staðið yfir í átta daga. Mótmælendur segjst ætla að halda áfram, uns forseti landsins, Hosni Mubarak, fer frá völdum.
Mótmælendur segja að skipan nýrrar ríkisstjórnar landsins, komi of seint til að hafa áhrif. Allsherjarverkfall er fyrirhugað í dag og búist er við að þúsundir taki þátt í mótmælunum.
Mótmælin eiga að hefjast klukkan 11 að staðartíma, klukkan níu að íslenskum tíma.