Ísraelar óttast að fari Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, frá völdum geti það opnað leið fyrir múslíma að komast til valda. Það myndi hafa víðtæk áhrif á samskipti landanna tveggja, sem lengi hafa verið friðsöm, en þau undirrituðu friðarsamkomulag árið 1979.
Egyptaland var fyrsta Arabaríkið til að semja frið við Ísraela. Mubarak Egyptalandsforseti hefur leikið lykilhlutverk í að miðla málum á milli Ísraela og Arabaheimsins.
Nú óttast Ísraelar að nýrri ógn muni stafa frá Egyptum.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í gær að miklar líkur væru á átökum á milli lýðræðissinnaðra byltingarsinna og stuðningsmanna harðlínumúslímastjórnar.
„Þetta eru tveir heimar, tveir helmingar, tvenns konar sjónarhorn. Annað tilheyrir hinum frjálsa heimi, hitt er heimur öfgamanna,“ sagði Netanyahu. „Hvort verður ofan á í Egyptalandi? Það skiptir höfuðmáli fyrir framtíð Egypta, þróun mála í þessum heimshluta og það skiptir miklu máli fyrir Ísraela.“
Hann bætti við að hugsanlega gætu þessi tvö öfl ekki komist að samkomulagi og þá gæti tekið við langt óvissutímabil fyrir egypsku þjóðina.
Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísrael, segist ekki vera í vafa um að valdatíð Mubaraks sé á enda. „Hans tími er liðinn,“ sagði Barak í viðtali við ísraelska sjónvarpsstöð.
Sérfræðingar telja að einu gildi hver arftaki Mubaraks verði, hann verði ekki jafn vinveittur Ísraelum. Líklegt sé þó talið að hann muni ekki ana að neinu, því ef friðarsamningar við Ísrael verði brotnir þá muni það hafa í för með sér breytt samskipti við Bandaríkin.
Næsta víst er talið að Íslamska bræðralagið muni fara með stórsigur í næstu kosningum í Egyptalandi.