Krefst frestunar aðildarviðræðna

Breskur þingmaður vill stöðva aðildarviðræður Íslands við ESB þar til …
Breskur þingmaður vill stöðva aðildarviðræður Íslands við ESB þar til sátt næst um makríl.

Tom Greatrex, þingmaður breska Verkamannaflokksins, krefst þess að vinnu vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu (ESB) verði frestað þar til samkomulag næst í makríldeilunni. 

Greatrex fer með málefni Skotlands í skuggaríkisstjórn Verkamannaflokksins. Hann lagði fram kröfuna um frestun á aðildarviðræðum ESB við Ísland í fyrirspurnatíma um umhverfismál, matvæli og byggðamál í breska þinginu í morgun.

„Slá verður aðlidarviðræðum Íslands við Evrópusambandið á frest þangað til þeir binda endi á einhliða og niðurrífandi nálgun sína að makrílveiðum og ná samkomulagi við ESB,“ sagði Greatrex.

Hann telur að samkomulag um að banna íslenskum skipum að landa makríl í höfnum ESB verði áhrifalaust hvað varðar að þvinga Íslendinga til að draga úr makrílveiðum.

„ESB verður að setja þetta mál í forgang,“ sagði Greatrex og taldi að eina leiðin til að fá Íslendinga til að taka mark á mótmælum við makrílveiðum sé að ESB stöðvi aðildarviðræðurnar. Hann sagði að það yrði beinlínis rangt að veita Íslandi aðgang að ESB á sama tíma og það hafi vísvitandi hunsað reglugerðir sambandsins um makrílkvóta og skaðað hagsmuni núverandi aðildarríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert