Ekki nógu hvasst

Boeing 787 Dreamliner.
Boeing 787 Dreamliner. Reuters

Forsvarsmenn Boeing eru ekki fullkomlega sáttir við prófanir á Boeing 787 Dreamliner flugvélum í hliðarvindi. Þeir hafa stundað aðflugsæfingar á Íslandi, en forsvarsmenn Boeing vilja láta reyna á vélina í enn meira roki og hvassviðri.

Í september sl. lenti Dreamliner-vél á Keflavíkurflugvelli til prófana í hliðarvindi. Var flugferðin til Íslands fyrsta alvörureynsluflugferð Dreamliner út fyrir Bandaríkin og önnur ferð flugvélarinnar frá Bandaríkjunum. Hins vegar fór fyrsta reynsluflug vélar af gerðinni Dreamliner fram í desember 2009.

Keflavíkurflugvöllur er sagður þekktur fyrir sterka vinda. Flugbrautir liggja þvers og kruss svo hægt er að prófa þar lendingar í hliðarvindi, hvernig sem vindur blæs.

„Við höfum enn ekki rekist á „stóru vindhviðuna“,“ segir flugmaðurinn Frank Santoni, sem stjórnar flugæfingum á farþegavélum Boeing, þegar hann flutti ávarp á ráðstefnu Konunglega flugmálasamfélagsins í London. Boeing stefnir að því að hefja aftur æfingar á Dreamliner-vélunum.

„Við erum að leita að einhverju í kringum 50 hnúta (26 metrar á sekúndu). Við höfum flogið í 28 hnútum (14 metrum á sekúndu) á þessari vél,“ segir hann.

Bæði Boeing og Airbus hafa notað Keflavíkurflugvöll til reynsluflugs í hliðarvindi. Þar voru m.a. bæði Boeing 777 og Airbus A380 þotur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert