Theresa Riggi, 47 ára gömul bresk móðir, sem ákærð er fyrir að hafa orðið þremur börnum sínum að bana kom í fyrsta sinn fram fyrir dómara í Edinborg í dag. Riggi er ákærð fyrir að hafa myrt Austin og Luke, átta ára gamla tvíbura, og Ceceliu, fimm ára systur þeirra, á heimili fjölskyldunnar í Edinborg í ágústmánuði á síðasta ári.
Riggi, sem kemur frá Kaliforníu í Bandaríkjunum, grét í réttarsalnum. Þar kom fram að hún hafði stungið tvíburana margsinnis með hnífi eða hnífum. Þá opnaði hún fyrir gas á heimilinu, lokaði öllum gluggum vandlega og leysti skrúfu af ventli brennarans með þeim afleiðingum að mikil sprenging varð. Húsið gjöreyðilagðist og lagði hún líf nástaddra, þar á meðal sitt eigið, í hættu en hún slasaðist alvarlega í sprengingunni.
Riggi verður í gæsluvarðhaldi þangað til mál hennar verður tekið fyrir þann 7.mars næstkomandi.