Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, verði að hlusta á almenning í landinu. Obama hvetur Mubarak til að taka rétta ákvörðun og hafa hag þjóðarinnar að leiðarljósi. Þá hvetur Obama jafnframt til þess að hafist verði handa við stjórnarskipti þegar í stað.
„Heimsbyggðin fylgist með,“ sagði Obama og bætti við að menn leysi ekki vandann með því að beita ofbeldi.
„Hann [Mubarak] verður að hlusta á það sem almenningur er að segja og taka ákvörðun um næsta skref fram á við sem er vel skipulagt, sem er hefur þýðingu og af alvöru,“ sagði Obama á sameiginlegum blaðamannafundi með Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, í dag.
„Ég trúi því að Mubarak sé annt um sína þjóð. Hann er stoltur, en hann er jafnframt föðurlandsvinur,“ sagði Obama.
Ellefta daginn í röð hafa tugir þúsunda mótmælt í Egyptalandi og krafist þess að Mubarak fari frá völdum.
Fréttaskýrandi breska ríkisútvarpsins í Washington segir að Obama hafi gengið lengra í því gefa til kynna að það sé best að Mubarak víki. Obama hefur hins vegar ekki sagt það berum orðum. Fréttaskýrandi BBC segir að það sé án efa mjög góðar diplómatískar ástæður fyrir því.