Mikill mannfjöldi er nú á götum og torgum Kaíró og annarra borga Egyptalands. Fólkið þrýstir á Hosni Mubarak að segja af sér á þessum „brottfarardegi“. Tugir þúsunda mótmælenda eru á Tahir torgi í miðborg Kaíró.
Mótmælin hafa nú staðið í ellefu daga samfellt. Í dag er hvíldardagur múslima og krupu margir til bæna á öðrum enda torgsins. „Við vorum borin frjáls og við skulum lifa frjáls,“ sagði Khaled al-Marakbi sem leiddi bænirnar.
Ýmsar sjónvarpsstöðvar eru með beinar útsendingar frá Tahir-torgi eða friðartorgi. Þeirra á meðal er Al Jazeera sjónvarpsstöðin.
Biðstaða egypska hersins, það hvernig herinn virðist bíða átektar eftir því sem gerist, vekur margar spurningar. Það þykir víst að herinn muni hafa áhrif á hvernig málum lyktar í Egyptalandi.
Stjórnmálaskýrendur reyna nú að ráða í hegðun hersins, sem er líkt við egypskan sfinx. Mohamed Hussein Tantawi marskálkur er varnarmálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra. Hann segir að yfirmenn hersins hafi fullvissað sig um að herinn muni ekki hefja skothríð á mótmælendur.