David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, mun í dag flytja ræðu á ráðstefnu í Þýskalandi um öryggismál þar sem hann mun fjalla um öfgahópa og ástæður hryðjuverka. Að sögn breska ríkisútvarpsins mun Cameron gagnrýna ríkisvætt fjölmenningarsamfélag.
Cameron mun færa rök fyrir því að Bretland verði að styrkja sín þjóðareinkenni til að koma í veg fyrir að fólk snúist til öfgahyggju.
Breska ríkisútvarpið segir að Cameron muni segja að samkvæmt núverandi stefnu í fjölmenningarmálum séu ólíkir menningarheimar í raun hvattir til að búa í sitt hvoru lagi og að menn sýni of mikið umburðarlyndi gagnvart ólíkum skoðunum.
Breskum yfirvöldum hafi mistekist að skapa þjóðfélag þar sem ólíkir menningarhópar vilji verða hluti af Bretlandi. Samfélög hafi myndast sem eru aðskilin breskri menningu og menn hafi ekkert aðhafst þrátt fyrir að fólk sem tilheyri þessum hópum hegði sér á máta sem er þvert á bresk gildi.
Þá mun hann greina frá því að bresk stjórnvöld muni taka harðar íslömskum öfgahópum. Hann gerir skýran greinarmun á íslamstrú og íslömskum öfgahópum.
Menn verði að skoða betur sum samtök múslíma sem njóti ríkisstuðnings en geri lítið til að berjast gegn öfgahyggju.
Ráðherrar eigi að neita að starfa með slíkum samtökum, sem eigi ekki að fá greitt úr opinberum sjóðum. Þá eigi að koma í veg fyrir að þeir geti komið hugmyndum sínum á framfæri í háskólum og í fangelsum.