Hvetur til lýðræðisumbóta

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvetur þjóðarleiðtoga í Mið-Austurlöndunum til að hefja lýðræðisumbætur, þrátt fyrir að hætt sé við því að slíkar breytingar geti leitt til pólitísks óstöðugleika til skamms tíma.

Clinton segir að víða sé mikil undiralda og það kraumi reiði meðal almennings vegna efnahagsvandamála og pólitískrar kúgunar. Afleiðingar þess geti orðið mun alvarlegri til lengri tíma litið.

Mikil mótmæli hafa staðið yfir í Egyptalandi, líkt og heimsbyggðin hefur fylgst með undanfarna 12 daga. Íbúar í Túni og Jemen hafa einnig komið saman til að mótmæla stjórnvöldum. Clinton segir vatns- og olíubirgðir fari þverrandi, og það í samblandi við mikið atvinnuleysi og langvarandi óánægju með núverandi stjórnarhætti í Mið-Austurlöndum ógni stöðugleikanum í heiminum. Þessi óánægja breiðist út með aðstoð nútímatækninnar.  

Þetta kom fram í máli Clinton á öryggisráðstefnu, sem fer nú fram í Munchen í Þýskalandi. Hún segir að leiðtogar ríkjanna geti haldið áfram í óbreyttri mynd, en aðeins um stundarsakir.

Hún segir nauðsynlegt að styrkja Arabaríki. Íbúar landanna verði að fá að njóta sín og það verði að koma í veg fyrir að öfgahópar geti haft áhrif á á. Clinton segir að svæðið muni standa frammi fyrir enn meiri vanda og ógnum verði ekki gripið til aðgerða, sem leiði til aukins lýðræðis.

Þetta sé ekki einhver hugmyndafræði heldur hrein nauðsyn. Hún segir að annars sé hætt við því að gjáin á milli stjórnvalda og almennings muni stækka og leiða til aukins óstöðugleika

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert