Íbúar Sydney í svitabaði

Brettakappi í Sydney. Mynd úr safni.
Brettakappi í Sydney. Mynd úr safni. Reuters

Mikil hitabylgja hefur verið í Sydney, fjölmennustu borg Ástralíu, en sex daga í röð hefur hitinn verið um eða yfir 35 stig, sem er met. Ástralska veðurstofan segir að 153 ár séu liðin frá jafn löngu hlýindaskeiði. Menn verði að leita aftur til ársins 1858.

Veðurfræðingurinn Neale Fraser segir að oftast hafi mælst þrír eða fjórir dagar í röð sem eru mjög hlýir. Oftast fari hitinn niður fyrir 30 stig áður en það hlýnar á ný.

Hann segir að hitabylgjan, sem er kölluð „svitabaðið mikla“, muni vara fram yfir helgi. Í næstu viku muni kólna.

Í dag fór hitinn í miðborg Sydney yfir 41,5 gráður. Borgarbúar hafa leitað skjóls á skuggsælum stöðum og kælt sig niður í sundlaugum eða í sjónum. 

Þá hafa kjarreldar kviknað í hlýindunum sem slökkviliðsmenn hafa barist við.

Náttúruöflin hafa valdið mikilli eyðileggingu í Ástralíu að undanförnu. Nýverið gekk fellibylurinn Yasi yfir Queensland og olli mikilli eyðileggingu. Íbúar í ríkinu eru enn að jafna sig eftir mikil flóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert