Mubarak sitji áfram sem forseti

Enn er mótmælt á Frelsistorginu í Kaíró. Hér sést ung …
Enn er mótmælt á Frelsistorginu í Kaíró. Hér sést ung stúlka veifa egypska fánanum. Reuters

Frank Wisner, sendifulltrúi Bandaríkjastjórnar í Egyptalandi, segir að Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, eigi að sitja áfram sem forseti og hafa yfirumsjón lýðræðisbreytingum. Ummælin hafa vakið athygli, en þau virðast vera þvert á fyrri yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar.

Hún hefur hingað til hvatt Mubarak til að hefja stjórnarskipti þegar í stað, og hafa menn talið að með því eigi Mubarak að víkja.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sendi Wisner, sem er fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Egyptalandi, til Kaíró sl. mánudag til að hvetja Mubarak til að stíga af valdastóli, að því er menn töldu.

„Það þarf að nást samstaða meðal þjóðarinnar varðandi þau skilyrði sem lúta að næstu skrefum fram á við. Forsetinn verður að vera áfram við völd til að hafa yfirumsjón með þessum breytingum,“ sagði Wisner í New York í dag. 

Wisner segist jafnframt fagna því að háttsettir einstaklingar í stjórnarflokki landsins hafi sagt af sér, þeirra á meðal er Gamal sonur Mubaraks forseta.

Umbótasinninn og læknirinn Hossam Badrawi hefur nú tekið við sem aðalritari flokksins.

Enn eru fjölmargir mótmælendur á Frelsistorginu í Kaíró.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert