Hörð átök brutust út á milli lögreglumanna og mótmælenda fyrir utan glæsihýsi Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, í Mílanó á Ítalíu kvöld. Fólkið krefst þess að ráðherrann láti af völdum og hafa mótmæli staðið yfir alla helgina.
Mótmælendur fjölmenntu fyrir utan einkaheimili Berlusconi sem hefur verið mikið í fjölmiðlum að undanförnu. Saksóknarar halda því fram að þar hafi forsætisráðherrann staðið fyrir svallveislum sem vændiskonur sóttu. Er Berlusconi sakaður um að hafa stundað kynlíf með ólögráða stúlku.
Í fyrstu voru mótmælin friðsamleg þar sem fólkið krafðist afsagnar Berlusconis. Um kvöldið var allt annað uppi á teningnum þegar hópur fólks reyndi að brjóta sér leið í gegnum varnarlínu lögreglu. Þá köstuðu sumir flöskum í lögregluþjónana.
Lögreglan svaraði af fullri hörku og beitti m.a. kylfum.
Að sögn ítalskra fjölmiðla hlutu a.m.k. sex einstaklingar minniháttar áverka í látunum.