Múslímska bræðralagið, sem eru áhrifamestu samtök stjórnarandstæðinga í Egyptalandi, segist ætla að hefja viðræður við stjórnvöld til að ræða leiðir til að binda enda á neyðarástandið í Egyptalandi.
Að sögn bræðralagsins munu viðræðurnar hefjast í dag. Meta eigi hversu mikið stjórnvöld eru reiðubúin til að gefa eftir til að verða við kröfum almennings í landinu.
Þetta hefur vakið athygli því þetta yrðu fyrstu viðræður stjórnvalda og Múslímska bræðralagsins, en samtökin eru bönnuð í Egyptalandi. Það var stofnað til að koma á íslömsku ríki.
Hingað til hefur bræðralagið látið hafa eftir sér að það muni ekki taka þátt í viðræðum stjórnarandsstöðuhópa við stjórnvöld. Sú afstaða hefur augljóslega breyst.
„Við höfum ákveðið að taka þátt í samræðum til að gera embættismönnum ljóst fyrir alvöru málsins varðandi kröfur almennings og hvort stjórnvöld séu reiðubúin til að mæta þeim,“ sagði talsmaður bræðralagsins við Reuters-fréttastofuna.
Enn er mótmælt í Egyptalandi og þess krafist að Hosni Mubarak, forseti landsins, fari frá völdum. Hann hefur neitað að víkja þegar í stað en hefur sagst vera reiðubúinn að stíga af valdastóli í september.