Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði við forsætisráðherra Egyptalands í dag að yfirvöld verði að hætta að áreita og handataka blaðamenn, sem fylgjast með og segja frá mótmælunum í landinu. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna greinir frá þessu.
Fram kemur að Clinton hafi rætt við Ahmed Shafik í síma í gærkvöldi og komið skilaboðunum á framfæri. Hún hafi hvatt til þess að stjórnvöld verði við kröfum almennings, sem vill að Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, víki þegar í stað.
Þá lagði Clinton áherlsu á að yfirvöld hætti að áreita aðgerðarsinna, blaðamenn og aðra sem starfa í almannaþágu.
Samtök til verndar blaðamönnum (CPJ), sem eru með höfuðstöðvar í New York, segjast hafa upplýsingar um að a.m.k. 114 árásir hafi verið gerðar á blaðamenn og vinnustöðvar þeirra á einni viku.
Nokkrar stórar fréttastofur, sem hafa sagt fréttir af átökunum og mótmælunum á Frelsistorginu í Kaíró, hafa greint frá því að stuðningsmenn Mubaraks hafi ráðist á fréttamenn eða að herinn hafi hneppt þá í varðhald.
Ráðuneyti upplýsingamála í Egyptalandi sendi frá sér yfirlýsingu á föstudag þar sem árásirnar eru fordæmdar.
Arabíska fréttastofan Al-Jazeera segir að enn einn fréttamaður stöðvarinnar hafi verið handtekinn í Kaíró. Segir fréttastofan að herinn hafi handtekið fréttamanninn skammt frá torginu, en að honum hafi síðar verið sleppt.