Stjórnarandstæðingurinn Mohamed ElBaradei sagði í gær að það yrði meiriháttar afturför ef bandarísk stjórnvöld myndu styðja það að Hosni Mubarak, forseta Egyptalands, eða varaforsetinn myndu leiða nýja ríkisstjórn í landinu. ElBaradei sagði jafnframt að meiri harka geti færst í mótmælin.
Ég gær lýsti bandaríski sendifulltrúinn Frank Wisner því yfir að Mubarak yrði að sitja áfram sem forseti. Bandaríska utanríkisráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfarið þar sem fram kemur að Wisner lýsi ekki skoðunum bandarískra stjórnvalda.
ElBaradei, sem er handhafi friðarverðlauna Nóbels og reyndur stjórnmálamaður, var spurður út í ummæli Wisners í gær.
„Ef þetta er satt [...] þá yrði þetta meiriháttar afturför, svo mikið get ég sagt,“ sagði hann í samtali við Reuters í gær. Hann bætti við því að ummælin hefðu valdið sér vonbrigðum.
Bandarísk yfirvöld hafa sagt að þau vilji að stjórnar- og valdaskipti muni eiga sér stað með skipulegum hætti og að þau hefjist þegar í stað. Mubarak hefur sagt að hann sé reiðubúinn að fara frá völdum í september, en mótmælendur vilja að hann fari þegar í stað.