Cynthia Stroum, sem var skipuð sendiherra Bandaríkjanna í Lúxemborg haustið 2009, sagði af sér í lok janúar. Í ljós hefur komið að á því ári sem hún stýrði sendiráðinu fór flest aflaga sem hægt var.
Eftir að Stroum hætti um mánaðamótin birti bandaríska utanríkisráðuneytið skýrslu, sem gerð var um ástandið í sendiráðinu í Lúxemborg. Þar segir að starfsmenn sendiráðsins lýsi flestir Stroum sem árásargjarnri, yfirgangssamri, fjandsamlegri og ögrandi og það hafi leitt til þess að vinnuumhverfið í sendiráðinu var afar erfitt og starfsmönnum leið illa.
Stroum er m.a. sögð hafa krafist þess að fá að lesa tölvupósta allra starfsmanna sendiráðsins. Þá gagnrýndi hún starfsmenn í heyranda hljóði og hótaði þeim brottrekstri.
Að minnsta kosti fjórir starfsmenn í sendiráðinu óskuðu eftir því að vera fluttir til Afganistans og Íraks frekar en vera áfram í Lúxemborg.
Fram kemur að Stroum hafi verið afar upptekin af þeim fríðindum sem fylgdu starfinu. Þegar endurbætur voru gerðar á sendiherrabústaðnum á síðasta ári lét Stroum starfsmenn leita að bráðabirgðahúsnæði. Leitin tók sex vikur og á þeim tíma skoðuðu starfsmennirnir tugi íbúða en Stroum hafnaði þeim öllum.
Daginn áður en bandaríska fjárlagaárinu lauk á síðasta ári lét Stroum sendiráðið kaupa áfengi fyrir 3400 dali og notaði til þess fjárveitingu, sem hefði ekki flust yfir á næsta fjárlagaár.
Cyntia Stroum, sem býr í Seattle, var einn af helstu stuðningsmönnum Baracks Obamas, Bandaríkjaforseta, í kosningabaráttunni árið 2008 og lagði jafnvirði næstum 60 milljóna króna í kosningasjóði hans.