Indverski sjóherinn og landhelgisgæslan hefur handsamað yfir 20 sjóræningja sem voru um borð í taílenskum togara sem þeir höfðu rænt. Talsmaður indverska varnarmálaráðuneytisins segir að tugir gísla hafi verið um borð í skipinu, sem var á siglingu á Indlandshafi.
Þetta er í annað sinn á einni viku sem sjóherinn nær að stöðva hóp sjóræningja.
Undanfarin ár hafa fjölmargir sjóræningjar, sem flestir eru frá Sómalíu, siglt um Indlandshaf og ráðist á önnur skip.
Aðgerðir sjóhersins hófust í gærkvöldi. Þá fékk hann upplýsingar um að sjóræningjar hefðu ráðist á grískt kaupskip á hraðbátum. Skipið náði að verjast árásinni.
Tvö indversk herskip og skip frá landhelgisgæslunni fundu báta sjóræningjanna í morgun og fylgdu þeim aftur að taílenska togaranum. Svo virðist sem að togarinn hafi verið notaðar sem bækistöðvar sjóræningjanna og þar hafi þeir skipulagt árásir á önnur skip.
Talsmaður sjóhersins segir að til skotbardaga hafi komið og að sjóræningjarnir hafi að lokum gefist upp. Siglt verður með skipið og ræningjanna til Mumbai á Indlandi þar sem þeir verða afhentir yfirvöldum.