Hálffimmtugur karlmaður, sem á síðasta ári var handtekinn í Kaupmannahöfn, grunaður um morð og nauðganir á tveggja áratuga tímabili, er nú grunaður um að hafa nauðgað fjórum stúlkum í íbúð á Amager árið 1995.
Að sögn danskra fjölmiðla hafa DNA sýni, sem fundust eftir nauðgunina, leitt til þess að maðurinn er grunaður um verknaðinn.
Maðurinn braust inn í íbúð við Ingolfs Alle á Amager 19. október 1995. Fjórar stúlkur voru í íbúðinni, húsráðandinn, sem var 23 ára, og þrjár stúlkur á aldrinum 14-15 ára. Maðurinn batt stúlkurnar og keflaði og nauðgaði þeim síðan.
Maðurinn var handtekinn í nóvember í fyrra eftir að 17 ára stúlku var
nauðgað á Amager í Kaupmannahöfn. Rannsóknir á
lífssýnum leiddu í ljós að um var að ræða sama mann, sem myrti
fertuga konu á Amager árið 1990 og nauðgaði 24 ára gamalli konu árið
2005, einnig á Amager.