Bresk kennslukona hefur verið leyst frá störfum tímabundið fyrir að hafa hvatt nemendur sína til að skrópa í skólanum og mæta á mótmælin gegn hækkunum á háskólaskólagjöldum sem fram fóru í Bretlandi í lok síðasta árs.
Myndir náðust af fjölda nemenda á mótmælunum í Lundúnum sem sumir voru klæddir skólabúningi. Nokkrar skólastúlkur sáust vinna skemmdarverk á lögreglubifreiðum á Trafalgar-torgi þann 24.nóvember síðastliðinn.
Sue Caldwell starfaði við Friern Barnet skólann í norðurhluta Lundúna en henni var gert að yfirgefa vinnustaðinn vegna kvartana frá foreldrum. Kennslukonan neitar allri sök.