Kúnnar flýja Amagerbanka

Amagerbanken
Amagerbanken

Viðskiptavinir Amagerbanka í Danmörku, sem tilkynnti gjaldþrot um helgina, sækja nú á önnur mið ef marka má upplýsingar frá samkeppnisaðilum hans. Að sögn Danske Bank, Nordea og Handelsbankans berast þeim sífellt fleiri fyrirspurnir frá viðskiptavinum Amagerbanka. Mörg útibú eru á vegum Danske Bank í Amager og hefur verið ákveðið, í ljósi aukinnar eftirspurnar, að fjölga starfsmönnum til að nýir og hugsanlegir viðskiptavinir fái hraða og góða meðferð.

Að sögn fréttavefjar Jyllands-Posten eru viðskiptavinir Amagerbankans um 115 þúsund talsins og starfsmenn um 500.  Bankinn er einn elsti bankinn í Danmörku.  Aðalorsök þess að Amagerbankinn er nú gjaldþrota er sú að stjórnendur bankans neyddust til að afskrifa gríðarlegar fjárhæðir á síðasta fjórðungi ársins 2010. Stjórn bankans ákvað á fundi á föstudag að afskrifa 3 milljarða danskra króna útlán til viðbótar við það sem áður var ákveðið. Síðdegis á föstudag gaf danska fjármálaeftirlitið stjórn bankans frest þar til á laugardag til að útvega aukið eigið fé en það tókst ekki.

Nýr banki, sem reistur er á rústum hins gamla Amagerbanka, opnaði í gærmorgun. Stjórn bankans hefur gert samning við danska tryggingarsjóðinn Finansiel Stabiletet um að hlutabréf bankans og eignir verði færðar í nýtt félag undir stjórn Finansiel Stabiletet. Þrátt fyrir að sjóðurinn hafi tilkynnt um að innistæður upp að 750 þúsund dönskum krónum, sem svarar til 16 milljóna íslenskra króna, verði tryggðar virðast viðskiptavinir ekki sannfærðir um að peningar þeirra séu tryggðir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert