Janet Napolitano, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, segir að sú hryðjuverkaógn sem Bandaríkin standi frammi fyrir sé sífellt að breytast. Að vissu leyti hafi ógnin aldrei verið meiri, eða frá því þann 11. september 2001 þegar hryðjuverkamenn gerðu árás á Bandaríkin.
Þetta sagði ráðherrann við bandaríska þingmenn í dag. Hún segir að Bandaríkin stafi ógn af hópum sem séu nú þegar starfandi innan Bandaríkjanna, sem sæki innblástur til al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna.
Napolitano segir að sú hætta sé fyrir hendi að árásir verði gerðar nánast fyrirvaralaust. Hins vegar verði róið að því öllum árum að draga úr þessari hryðjuverkaógn.
Að undanförnu hafa borist fréttir af tilraunum manna eða hópa, sem tengjast al-Qaeda eða talibönum, til að gera árásir í Bandaríkjunum. M.a. fréttir af Nígeríumanni sem reyndi að sprengja flugvél í loft upp, en hann faldi sprengiefni í nærfatnaði sínum, og af manni sem ætlaði að gera árás í jarðlestarkerfi New York borgar.