Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, segir kröfu saksóknara um að réttarhöldum yfir sér verði flýtt sé „viðbjóðsleg“, en ráðherrann er sakaður um að hafa greitt ólögráða stúlku fyrir kynlíf.
Berlusconi segir að málatilbúnaðurinn sé fyrirsláttur. Markmiðið sé einfaldlega að koma sér frá völdum.
Forsætisráðherrann neitar að hafa greitt Karimu El Mahroug fyrir kynlíf þegar hún var 17 ára gömul. Þá neitar hann einnig að hafa misnotað vald sitt þegar hann fékk lögregluna til að sleppa henni úr haldi, en hún hafði verið handtekinn vegna rannsóknar á öðru máli.
Það er nú í höndum dómara að meta hvort búið sé að safna nægilega mikið af sönnunargögnum svo hægt sé að hefja réttarhöld. Verði Berlusconi fundinn sekur þá gæti hann átt 15 ára fangelsi yfir höfði sér.
Berlusconi sagði við blaðamenn í Róm í dag að málið ætti ekki við nein rök að styðjast og hann sakaði saksóknarana um niðurrifsstarfsemi.
„Það eina sem ég get sagt er að þetta er farsi. Það er enginn fótur fyrir ásökununum. Eini tilgangurinn rannsóknarinnar er að ærumeiða mig í fjölmiðlum,“ sagði hann.
„Ég hef ekki áhyggjur af mér. Ég er ríkur maður sem gæti varið tímanum í að reisa sjúkrahús í heiminum, eins og ég hef ávallt viljað gera.“