Bandaríkjastjórn hefur hvatt ríkisstjórn Egyptalands til að aflétta þegar í stað neyðarlögunum sem hafa verið í gildi í landinu í þrjá áratugi. Greint er frá þessu á vef breska ríkisútvarpsins.
Þá hefur Robert Gibbs, talsmaður Bandaríkjaforseta, gagnrýnt ummæli Omar Suleimans, varaforseta landsins, um að Egyptaland sé ekki búið undir lýðræði. Bandarísk stjórnvöld segja lítið gagn í ummælum sem þessum. Suleiman hefur sagt að sú hætta sé fyrir hendi að tilraun verði gerð til valdaráns takist mönnum ekki að koma á lýðræðisumbótum.
Gibbs sagði ennfremur að ummælin stönguðust á við hugmyndir manna um gerð tímaáætlunar varðandi valdaskiptin.
Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, hvetur stjórnvöld í Egyptalandi til að hefja þegar í stað ferli sem muni leiða til valdaskipta, og að tekið verði tillit til krafna almennings.
Þá hefur hann hvatt egypsk stjórnvöld til að hætta að handtaka og ráðast á fréttamenn og aðgerðarsinna. Egypska innanríkisráðuneytið eigi að hemja sig og sú stefna eigi að liggja skýrt fyrir að refsiaðgerðum verði ekki beitt gegn almenningi.
Mótmælin í Kaíró í gær voru þau fjölmennustu frá því þau hófust þann 25. janúar sl. Fólk fjölmennti á götum úti þrátt fyrir að ríkisstjórn landsins hafi lýst því yfir að friðsöm valdaskipti séu í farvegi.