Tveggja daga viðræðum nágrannaríkjanna á Kóreuskaganum lauk í dag án niðurstöðu. Höfðu vonir verið bundnar um vopnafrið á milli ríkjanna, en þrýstingur hefur verið erlendis frá á N-Kóreumenn að láta af kjarnorkuvopnaáætlun sinni.
Áður en viðræðurnar hófust í gær, var talið að einhver þýða hefði komist á í samskiptum ríkjanna á nýju ári. Bæði N- og S-Kóreumenn höfðu lýst yfir vilja til að ræða saman en viðræður af þessu tagi hafa ekki átt sér stað undanfarin tvö ár.
Sendinefndirnar gátu ekki einu sinni komið sér saman um viðræðuáætlun fyrir háttsettari ráðamenn ríkjanna. Yfirvöld í S-Kóreu hafa farið fram á það við granna sína í norðri að þeir viðurkenni ábyrgð á árás þeirra á eyju í S-Kóreu á síðasta ári, sem varð fjórum mönnum að bana, þar af tveimur almennum borgurum.
Stjórnvöld í Kína og Bandaríkjunum hafa boðið N-Kóreumönnum aðstoð, gegn því að þeir hætti að vígbúast með kjarnorkuvopn. Þeir slitu friðarviðræðum fyrir tveimur árum, í mótmælaskyni við ákvörðun Sameinuðu þjóðanna um að setja viðskiptabann á N-Kóreu.