Fyrrum talsmaður WikiLeaks, þýski forritarinn Daniel Domscheit-Berg, hefur skrifað opinskáa bók um innra starf hópsins sem stendur að baki vefsíðunni og leiðtoga hans, Julian Assange.
Domscheit-Berg var áður hægri hönd Assange, en þeirra samstarfi lauk á síðasta ári vegna ágreinings um framtíð vefsíðunnar. Þá yfirgaf hann samtökin ásamt nokkrum öðrum.
Bókin ber heitið: „Wikileaks að innan: Starfstími minn með Julian Assange við hættulegustu vefsíðu heims.“ Henni er ætlað að uppljóstra um bæði góðu og slæmu hliðar síðunnar frægu, að sögn Domscheit-Berg.
Í viðtali þýska tímaritsins Stern við Domscheit-Berg, sem birtist í gær, var áherslan lögð á slæmu hliðar samtakanna. Domscheit-Berg, sem var fremsti forritari síðunnar, sagði við Stern að hann hefði tekið hugbúnað WikiLeaks og verðmæt gögn með sér er hann yfirgaf samtökin, þar sem hann treysti Assange ekki til að vernda þau og uppruna þeirra. Hann neitar því að hafa gert þetta til að vinna spellvirki og hyggst afhenda gögnin þegar hann er sannfærður um að öryggismál WikiLeaks séu í góðu standi.
„Börn eiga ekki að leika sér með byssur,“ segir í bók Domscheit-Berg. „Við ákváðum að fjarlægja þessi hættulegu leikföng svo Julian gæti ekki skaðað einhvern annan.“
Domscheit-Berg sagði að þau gögn sem WikiLeaks hyggjast birta næst, er varða Bank of America, séu „fullkomlega ótilkomumikil“.
Afburðarsnjall en heltekinn af völdum
Domscheit-Berg lýsti fyrrum yfirmanni sínum, Assange, þannig að hann hefði bæði óskaplega bjartar og dökkar hliðar. Hann sagði Assange vera óhamlaðan hugsuð, orkumikinn og afburðarsnjallan. En um leið sé hann ofsóknaróður og heltekinn af völdum. „Ég hef aldrei kynnst jafn öfgafullri manneskju áður,“ sagði Domscheit-Berg.
Í bókinni er fjallað um hin ýmsu dulnefni sem Assange notaði og hvernig starfsmenn WikiLeaks vissu aldrei fyrir víst hvort þeir væru að tala við Assange sjálfan eða einhverja af hinum skálduðu persónum.
Húsaleiga á Íslandi
Domscheit-Berg segir þær fullyrðingar Assange að það hefði kostað fimmtíu þúsund dali að komast yfir skotárásarmyndbandið fræga, sem sýndi bandaríska hermenn skjóta á saklausa borgara í Bagdad, ekki réttar. Assange vildi fá upphæðina bætta. Domscheit-Berg sagði kostnaðinn ekki hafa verið varið í myndbandið sjálft, heldur húsaleigu Assange á Íslandi og flugmiða handa honum víða um heim.
Forritarinn skrifaði einnig um afstöðu Assange til kvenna. Hann sagði Assange gera einfaldar kröfur til þeirra. Aðallega að þær væru ungar, helst yngri en tuttugu og tveggja ára gamlar og efuðust ekki um það sem hann segði. „Hún þarf að vera meðvituð um stöðu hennar sem kona,“ hefur hann eftir Assange.