Mubarak segir ekki af sér

Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, flutti sjónvarpsávarp í kvöld.
Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, flutti sjónvarpsávarp í kvöld.

Hosni Mubarak, for­seti Egypta­lands, til­kynnti í kvöld að hann ætlaði ekki að segja af sér for­seta­embætti. Kosn­ing­ar myndu fara fram í sept­em­ber. Mót­mæl­end­ur gátu ekki leynt von­brigðu sín­um þegar ljóst var að for­set­inn ætlaði ekki að segja af sér eins og þeir hafa kraf­ist.

Mubarak sagði að verk­efni sitt næstu mánaða yrði að tryggja eðli­leg stjórn­ar­skipti sem færu fram með for­seta­kosn­ing­um í sept­em­ber. Hann sagðist ekki ætla að verða við kröf­um er­lendra ríkja sem gæfu fyr­ir­skip­un um að hann færi frá völd­um þegar í stað.

Mubarak tók fram að hann ætla að fela Omar Su­leim­an vara­for­seta auk­in verk­efni.

Mubarak sagði að komið yrði á fót nefnd til að rann­saka at­b­urði síðustu daga og hvernig stjórn­völd hefðu brugðist við mót­mæl­un­um. Einnig yrði unnið að breyt­ing­um á stjórn­ar­skrá.

Mubarak ávarpaði þjóðina í sjón­varpi, en fyr­ir­fram hafði verið allt eins bú­ist við að hann myndi segja af sér. Hossam Badrawi, yf­ir­maður í egypska hern­um, sagði fyrr í dag að hann hefði hvatt Mubarak til að segja af sér.

Mik­il reiði braust út meðal mót­mæl­enda sem hl­ustuðu á ávarpið á Tahrir-torgi í Kaíró. Marg­ir tóku fóru úr skón­um og otuðu þeim að sjón­varps­skján­um og sýndu þannig fyr­ir­litn­ingu sína á for­set­an­um.

 Hosni Mubarak er fædd­ur 1928 og gekk í egypska her­inn árið 1949 þar sem hann starfaði þar til hann var skipaður vara­for­seti árið 1977. Hann varð síðan for­seti Egypta­lands í októ­ber 1981 þegar Anw­ar Sa­dat var myrt­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert