Andlitsmynd suður afríska ljósmyndarans Jodi Bieber hefur verið valin fréttaljósmynd ársins í keppninni World Press Photo. Myndin er af átján ára gamalli stúlku frá Afganistan sem var afskræmd í framan í refsingarskyni fyrir að hafa strokið að heiman frá eiginmanni sínum.
Myndin birtist fyrst á forsíðu Time Magazine þann 1. ágúst á síðasta ári. Fyrirsætan heitir Bibi Aisha, en það voru Talibanar sem skáru af henni bæði nef og eyru. Aisha flúði aftur til fjölskyldu sinnar frá eiginmanni sínum og sagði að hann beitti hana ofbeldi.
Eftir að hún hafði verið afskræmd í framan var henni bjargað af bandarískum hermönnum og hjálparstarfsmönnum. Loks fór hún í lýtaaðgerð í Bandaríkjunum, þar sem hún er nú búsett.
Formaður dómnefndarinnar segir að myndin kunni að verða ein af fáum myndum í heiminum, sem allir munu þekkja þegar á hana verður minnst í framtíðinni. Bieber hlaut einnig verðlaun í flokki andlitsmynda fyrir sömu mynd.