Mubarak hefur sagt af sér

Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, flutti sjónvarpsávarp í gærkvöldi.
Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, flutti sjónvarpsávarp í gærkvöldi.

Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, hefur sagt af sér sem forseti landsins. Omar Suleiman, varaforseti landsins tilkynnti þetta í sjónvarpsávarpi. Gríðarlegur fögnuður braust út á götum úti þar sem mótmælendur hafa krafist afsagnar í marga daga.

„Okkur tókst það. Ég trúi þessu ekki. Mubarak einræðisherra er farinn. Egypska þjóðin verður frjáls um alla framtíð. Við erum svo stolt. Allir eru svo glaðir,“ sagði einn mótmælenda sem talaði við BBC stuttu eftir að fréttir af afsögninni bárust til mótmælenda á Tahrir-torgi. Fólk á torginu ræður sér vart fyrir gleði og hrópar og faðmar hvert annað.

Tilkynning varaforsetans var örstutt. „Við þessar mjög svo erfiðu kringumstæður sem Egyptaland er að ganga í gegnum hefur Hosni Mubarak forseti tekið ákvörðun um að segja af sér embætti og hefur falið herráðinu að fara með stjórn landsins. Megi guð hjálpa okkur öllum.“

Miðað við þetta hefur herinn tekið við völdum í landinu þar til forsetakosningar fara fram en þær áttu að fara fram í september.

Fyrr í dag bárust fréttir af því að Mubarak hefði yfirgefið Kaíró og væri kominn til Sharm el-Sheikh við Rauðahafið, en það er dvalarstaður forsetans og hann hefur þar tekið á móti fjölda erlendra þjóðhöfðingja.

Frá því að mótmælin hófust fyrir 18 dögum hefur Mubarak tvisvar ávarpað þjóðina. Í bæði skiptin hefur hann sagt að hann ætli ekki að hætta sem forseti fyrr en í september þegar forsetakosningar fara fram. Eftir ávarpið sem hann flutti í gær braust út mikil reiði meðal mótmælenda sem búist höfðu við því að hann ætlaði að fara að segja af sér. Gríðarlegur fjöldi manna mætti út á götur borga landsins í dag til að ítreka kröfu sína um að forsetinn færi frá völdum.

Hosni Mubarak er fæddur 1928 og gekk í egypska herinn árið 1949 þar sem hann starfaði þar til hann var skipaður varaforseti árið 1975. Hann varð síðan forseti Egyptalands í október 1981 þegar Anwar Sadat var myrtur. Fara þarf aftur til fyrri hluta 19. aldar til að finna þjóðhöfðingja í Egyptalandi sem hefur verið lengur á valdastóli en Mubarak.

Bein útsending sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera frá Kaíró

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert