Fagnaðarlæti vegna falls Hosnis Mubarak, forseta Egyptalands, ná langt út fyrir landamæri Egyptalands. Túnisbúar flykktust út á götur og íbúar fleiri Arabalanda fögnuðu einnig endalokum 30 ára valdatíðar Hosnis Mubarak.
Á götum Túnis kölluðu sumir eftir falli Ísraels, en aðrir sögðu að kominn væri tími til að aðrar einveldisstjórnir í Arabalöndum stígi til hliðar.
„Gleði mín er ólýsanleg. Við getum fundið ilminn af frelsinu, loksins erum við frjáls. Fögnuður okkar mun vaxa með Guðs hjálp og öll Arabalönd verða frjáls og allir einræðisherrar í löndum Araba hverfa. Við viljum meiri fögnuð og að allir einræðisherrarnir fari,“ sagði kona í Ikram í Túnis.
Ástandið var svipað í Jemen en þar hafa einnig verið mótmæli gegn sitjandi stjórnvöldum á undanförnum tveimur vikum. Jemenskir og egypskir mótmælendur gengu hlið við hlið um götur Sanaa á föstudagskvöld. Sumir hrópuðu að ríkisstjórn Jemens ætti að yfirgefa landið.
Fólk með ólíkar stjórnmálaskoðanir safnaðist saman fyrir utan sendiráð Egyptalands í höfuðborg Jórdaníu. Þar var varað við því að tími þeirra leiðtoga Araba sem stunda kúgun sé takmarkaður.
„Ég tel að þetta sé viðvörun fyrir sérhvern leiðtoga Araba sem heldur að hann haldi völdum jafnvel þótt hann kúgi fólkið sitt, en nei, ef leiðtogarnir heyra ekki hvað er best fyrir fólkið þeirra þá verða þeir næstir,“ sagði Dina Al Masri, mótmælandi.
Egyptar búsettir í Grikklandi hópuðust að sendiráði lands þeirra í Aþenu þegar fréttir bárust af því að Mubarak hefði stigið af stóli. Um 10.000 Egyptar búa í Grikklandi. Þar hafa verið fjölmennar mótmælaaðgerðir til að styðja mótmælin í Egyptalandi og verið kallað eftir afsögn Mubaraks.
Útlægir Egyptar fögnuðu einnig á götum New York en þar gætti nokkurrar reiði vegna afstöðu Bandaríkjanna til Egyptalands undir stjórn Mubaraks.
„Það er bara eitt sem ég vil segja við Obama,“ sagði Hesham Ergoroni, mótmælandi. „Þakka þér fyrir ekki neitt. Þakka þér vegna þess að þú gerðir ekki neitt fyrir Egyptaland þar til nú.“
Þegar birti af degi á þessum laugardegi í Kaíró var egypski herinn við völd eftir að Mubarak hvarf frá völdum. Þrátt fyrir fögnuð fólksins nú er mikil óvissa varðandi framtíð egypsku þjóðarinnar.