Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa boðist til að skjóta skjólshúsi yfir Hosni Mubarak, fyrrverandi forseta Egyptalands, og auðævin sem hann sankaði að sér í 30 ára forsetatíð sinni.
Fréttavefur Berlingske greindi frá þessu og bar dagblað í Kúveit fyrir fréttinni. Blaðið Al-Qabas sagði að Mubarak ætti í hrossakaupum við utanríkisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Sheikh Abdullah Bin Zayed Al Nahyan.
Í samkomulaginu mun felast að Mubarak fái hæli í furstadæmunum og tryggi um leið auðævi fjölskyldu sinnar. Þetta samkomulag var forsenda þess að hann hyrfi af forsetastóli.