Jemenar kalla eftir byltingu

Þúsundir jemenskra mótmælenda, fullir af baráttumóð eftir fréttirnar frá Egyptalandi, hafa gengið um götur höfuðborgar Jemen og lent í útistöðum við vopnaða menn og öryggissveitir.

Mótmælendurnir í Jemen kalla eftir byltingu í heimalandi sínu. Aðeins liðu nokkrar klukkustundir frá því að vopnaðir menn þvinguðu litla hópa stjórnarandstæðinga til að láta af mótmælum þar til að enn fleiri bættust í hóp mótmælenda í höfuðborginni Sanaa.

Margir voru fullir baráttuvilja eftir sögulegt fall forseta Egyptalands, Hosnis Mubarak, og brottrekstur Túnisforseta í síðasta mánuði.

„Við krefjumst réttinda öllum til handa og viljum velta ríkisstjórninni, forsetinn verður að víkja rétt eins og Hosni Mubarak og forseti Túnis,“ sagði Ahmed Omar námsmaður.

Bandarísku samtökin Human Rights Watch sögðu að öryggissveitir hafi ekki gert neitt til að hindra hundruð manna, sem voru vopnaðir hnífum og rifflum, í að ráðast á jemenska mótmælendur sem fögnuðu afsögn Mubaraks á föstudag. 

Forseti Jemens, Ali Abdullah Saleh hefur lofað því að leita ekki eftir endurkjöri né heldur að afhenda syni sínum völdin - en kjörtímabili hans lýkur ekki fyrr en árið 2013. 

Stuðningsmaður Salehs forseta segir að stjórnarandstæðingar séu ekki með skýra stefnu og vilji „draga landið út í ringulreið“. Hópar stjórnarandstæðinga hafa ekki brugðist við boði Salehs um myndun þjóðstjórnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert