Maður lést eftir að hafa kveikt í sjálfum sér á markaði í Benguerir í Marokkó í dag.
Mourad Raho, 26 ára, hafði verið rekinn úr hernum í fyrrasumar og segja þarlendir miðlar að hann hafi þjáðst af þunglyndi og lifað við bág kjör.
Í örvæntingu sinni hellti hann fimm lítrum af bensíni yfir sig og bar eld að. Hann lést skömmu síðar á sjúkrahúsi.
Þetta er fyrsta dauðsfallið af völdum sjálfsíkveikju sem vitað er um í Marokkó en í þessum mánuði hafa fjórir aðrir kveikt í sjálfum sér, að því er talið er af örvæntingu vegna slæmra lífskjara.
Í Marokkó hefur verið svipað ástand og í öðrum arabalöndum, mikið atvinnuleysi og ójöfnuður og vaxandi krafa um stjórnarfarslegar umbætur, ekki síst frá unga fólkinu en í þessum löndum er ungt fólk orðið í meirihluta.