Egypskir hermenn eru nú að reka mótmælendur af Tahir torgi í Kaíró en mótmælendur settust þar að fyrir 20 dögum og hétu því að víkja ekki fyrr en umbætur hefðu verið gerðar. BBC greindi frá þessu.
Hermenn lentu í útistöðum við nokkra tugi þaulsætinna mótmælenda sem neituðu að yfirgefa Tahir-torg í miðborg Kaíró. Torgið var helsti vettvangur mótmælanna sem steyptu Hosni Mubarak forseta af stóli.
Hundruð þúsunda mótmælenda sem höfðu dvalið á torginu tóku saman föggur sínar og sneru heim eftir afsögn Mubaraks á föstudaginn var. Herinn tók þá við völdum og hét því að vinna að lýðræðislegum umbótum.
Nokkrir mótmælendanna neituðu þó að yfirgefa torgið fyrr en loforðunum um umbætur yrði hrundið í framkvæmd, að sögn ljósmyndara á vegum AFP fréttastofunnar.
Þegar hermenn báðu mótmælendurna að fara kyrjuðu þeir: „Mótmælum, mótmælum þar til við fáum kröfum okkar fullnægt.“ Hermennirnir drógu sig þá til baka en létu síðan skríða til skarar.
Umferð um hluta torgsins er nú að mestu komin í eðlilegt horf eftir 18 daga mótmælin sem lokuðu fyrir umferðina um torgið.