Hosni Mubarak, sem nú hefur verið hrakinn af forsetastóli Egyptalands, er talinn hafa notað síðustu daga embættistíðar sinnar í að koma undan gríðarlegum auðæfum á órekjanlega bankareikninga utan landssteinanna, til að forða þeim undan hinum langa armi laganna, sem gæti hafið rannsókn á næstunni.
Talið er að Mubarak, sem er 82 ára gamall, hafi á forsetastóli sankað að sér jafnvirði að minnsta kosti 560 milljarða króna, eða um þriggja milljarða punda að sögn The Daily Telegraph. Aðrar heimildir herma að hann hafi sankað að sér allt að 40 milljörðum punda, eða um 7.500 milljörðum króna.
Sagt er að auðæfi hans hafi verið geymd í erlendum bönkum, ýmsum fjárfestingum, gullstöngum og fasteignum í London, New York, París og Beverly Hills í Los Angeles.
Á föstudag tilkynntu svissnesk stjórnvöld að þau ætluðu sér að frysta allar eignir Mubaraks og fjölskyldu hans, sem geymdar væru í bönkum landsins. Þá fór þrýstingur einnig vaxandi á bresk stjórnvöld að gera það sama. Mubarak hefur sterk tengsl til London og talið er að hann hafi verið með milljónir punda í eignum þar.
Telegraph hefur eftir heimildum innan úr leynisþjónustunni að Mubarak hafi byrjað að flytja eignir á síðustu vikum. „Við vitum af nokkrum áríðandi samtölum við Mubarak fjölskylduna, um það hvernig væri hægt að bjarga þessum eignum,” segir heimildarmaðurinn. „Og við teljum að fjármálaráðgjafar þeirra hafi fært eitthvað fé til og frá fyrir fjölskylduna. Ef hann átti mikið fé í Zurich gæti verið að það sé allt horfið þaðan núna.
Eftir valdaskiptin í Egyptalandi heyrast nú kröfur um að Mubarak verði ákærður fyrir spillingu. Í mótmælunum í síðustu viku krafðist Ibrahim Yousri, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra landsins, ásamt 20 lögfræðingum, þess að Abdel Meguid Mahmoud, ríkissaksóknari Egyptalands, myndi gefa út ákæru á hendur Mubarak, fyrir þjófnað á ríkiseigum.
Hópar fólk á Tahrir-torgi ræddu í gær hvað skyldi gera við Mubarak. Manar Louay, sextán ára nemi, sagði: „Ég held ekki að það ætti að ákæra hann. Hann hélt landinu frá stríðsástandi. En þeir ættu að taka af honum peninginn. Hann á ekki þennan pening.”
Mohamed El Beblawy, sextugur bílstjóri, sagði við blaðamanninn að ekki ætti aðeins að ákæra Mubarak, heldur alla hina yfirmennina og ráðherrana líka. Fatma Samy Ahmed, fimmtug kona sem var að hreinsa til á Tahrir-torgi sagði sína skoðun: „Það ætti að taka hann af lífi eins og Saddam Hussein. Hálf þjóðin lifði við hungurmörk, á meðan Mubarak og vinir hans lifðu í himnasælu.
Bandarískur embættismaður segir við Telegraph að enginn vafi leiki á því að á bak við tjöldin hafi verið einhver örvæntingarfull fjármálastarfsemi í gangi. Mubarak fjölskyldan missi kannski einhverjar fasteignir og einhverja bankareikninga, en höfuðáhersla hafi verið lögð á að koma gullstöngum og helstu fjárfestingum á örugga staði, svo sem sameinuðu arabísku furstadæmin, eða Sádí-Arabíu.
Egypskar heimildir herma að Mubarak hafi átt í viðskiptum við svissneska bankann UBS. Einnig við HBOS, sem er hluti af Lloyds Banking Group, sem er nú að stórum hluta í eigu breska ríkisins.
Heimildir herma einnig að mögulega sé auðveldast að rekja slóðir auðæfanna í gegnum athafnir annars sonar Mubaraks, Gamal, sem er 47 ára gamall. Hann bjó eitt sinn í sex hæða húsi í Belgravia í London og vann við bankastarfsemi í borginni. Þar setti hann síðan upp fjárfestingar og ráðgjafarfyrirtæki, en hætti sem forstjóri þess fyrir tíu árum.